Ný í eigendahópi KPMG 2024

Nýlega bættust þau Friðrik Einarsson, Hafþór Ægir Sigurjónsson, Margrét Pétursdóttir og Róbert Ragnarsson við eigendahóp KPMG.

Nýlega bættust Friðrik, Hafþór, Margrét og Róbert í eigendahóp KPMG.

Ný í eigendahóp KPMG

F.v. Friðrik Einarsson, Hafþór Ægir Sigurjónsson, Margrét Pétursdóttir og Róbert Ragnarsson

Friðrik Einarsson hefur starfað á endurskoðunarsviði frá árinu 2005. Hann lauk meistaragráðu í endurskoðun og reikningsskilum frá Háskólanum í Reykjavík og öðlaðist löggildingu til endurskoðunarstarfa árið 2010. Friðrik hefur unnið á skrifstofu KPMG í Reykjavík, á Egilsstöðum og er nú í forsvari fyrir skrifstofu félagsins á Selfossi. Friðrik er með víðtæka reynslu við að þjónusta fjölbreytt fyrirtæki, sveitarfélög og aðrar opinberar stofnanir. Einnig hefur hann verið i forsvari fyrir þróun og innleiðingu á stafrænum lausnum í endurskoðun og stýrir sérfræðiteymi í tölvuendurskoðun á endurskoðunarsviði.

Hafþór Ægir Sigurjónsson starfar á ráðgjafarsviði félagsins þar sem hann hefur stýrt sjálfbærniþjónustunni síðustu ár. Hafþór lauk doktorsprófi í verkfræði frá Tækniháskólanum í Danmörku (DTU). Hann hefur stundað kennslu og rannsóknir hjá DTU og Háskóla Íslands á sviði sjálfbærnimála. Þá var Hafþór meðstofnandi ráðgjafarfyrirtækisins Circular Solutions, sem sérhæfði sig í sjálfbærnimálum, en fyrirtækið sameinaðist KPMG árið 2021. Hafþór var hluti af öflugu teymi sem hóf störf á ráðgjafarsviði KPMG við sameiningu félaganna. 

Margrét Pétursdóttir hóf nýlega störf hjá KPMG en hún er löggiltur endurskoðandi og starfar á endurskoðunarsviði. Margrét bætist við sterkt sjálfbærniteymi KPMG og mun aðstoða við að leiða þjónustu félagsins við að veita óháða staðfestingu á sjálfbærniskýrslur fyrirtækja. Hún hefur starfað í faginu í hátt í þrjá áratugi og var nú síðast forstjóri endurskoðunar og ráðgjafarfyrirtækisins EY en hafði áður veitt endurskoðunarsviði félagsins forstöðu. Margrét hefur unnið mikið með fjármálafyrirtækjum og skráðum félögum og hefur meðal annars sinnt þjálfun stjórnarmanna í fjármálafyrirtækjum við undirbúning fyrir hæfismat Fjármálaeftirlitsins.

Þá hefur Margrét verið virk í félagsstarfi löggiltra endurskoðanda og var meðal annars formaður Félags löggiltra endurskoðenda á árunum 2015 til 2017. Hún situr í stjórn Alþjóðasamtaka endurskoðenda (IFAC) og hefur veitt stjórnarháttarnefnd samtakanna forstöðu.

Róbert Ragnarsson er nýr í eigandahópi KPMG og starfar á ráðgjafarsviði. Hann stundaði meistaranám í stjórnmálafræði við Háskólann í Árósum og Háskóla Íslands, þaðan sem hann útskrifaðist 2003. Róbert er reynslumikill sérfræðingur og stjórnandi úr opinbera geiranum. Hann var bæjarstjóri Grindavíkurbæjar og Sveitarfélagsins Voga samtals í um 11 ár og þar áður verkefnastjóri í félagsmálaráðuneytinu. Róbert hóf störf á ráðgjafarsviði KPMG í mars 2022, en áður rak hann eigið ráðgjafarfyrirtæki í fimm ár. ​

Það er okkur mikill fengur að fá þau Friðrik, Hafþór, Margréti og Róbert í eigendahópinn. Öll hafa þau mikla reynslu á sínum sérsviðum og njóta virðingar meðal viðskiptavina og samstarfsfólks. Með þau innanborðs er KPMG enn sterkari bæði út á við og inná við. Ég óska þeim til hamingju með áfangann og vil bjóða þau velkomin í eigendahóp KPMG.

Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri KPMG