Um KPMG 

KPMG International er alþjóðlegt net fyrirtækja sem veita sérfræðiþjónustu með það að markmiði að breyta þekkingu í verðmæti til hagsbóta fyrir viðskiptavini sína, starfsfólk og samfélagið.

 

Á heimsvísu starfa meira en 160 þúsund manns hjá KPMG í 160 löndum. Samstarf þessa stóra hóps byggir á reglubundnu gæðaeftirliti og aðgangi að upplýsingum sem tryggir fagþekkingu í heimsklassa og sömu þjónustu í öllum heimshornum.

 

Á Íslandi spannar saga KPMG ehf. frá 1975 og félagið varð aðili að alþjóðlega KPMG netinu árið 1985.

Á Íslandi starfa um 240 manns hjá KPMG og er þetta fjölbreyttur hópur sérfræðinga á öllum sviðum viðskipta. Löggiltir endurskoðendur félagsins eru 58, þar starfa um 16 lögfræðingar og fjöldi viðskiptafræðinga auk annars fagfólks.

 

Höfuðstöðvar félagsins eru að Borgartúni 27 í Reykjavík, en félagið rekur einnig skrifstofu eða starfsstöð í 15 öðrum sveitarfélögum; á Akureyri, Akranesi, Blönduósi, Borgarnesi, Dalvík, Egilsstöðum, Hafnarfirði, Hellu, Höfn, Reyðarfirði, Reykjanesbæ, Sauðárkróki, Selfossi, Skagaströnd, Stykkishólmi og í Vestmannaeyjum.

 

KPMG á Íslandi er skipt í þrjú svið. Það eru endurskoðunarsvið, skatta- og lögfræðisvið og ráðgjafarsvið. Framkvæmdastjóri félagsins er Jón Sigurður Helgason en stjórnarformaður er Svanbjörn Thoroddsen. Sviðsstjórar ofangreindra sviða eru Guðný Helga Guðmundsdóttir, Alexander Eðvardsson og Benedikt K. Magnússon.

 

Megintilgangur KPMG á Íslandi er að veita fyrirtækjum og einstaklingum á Íslandi sérhæfða þjónustu á sviði endurskoðunar og ráðgjafar sem grundvallast á áreiðanleika, ítrustu fagmennsku og öryggi. Vel þjálfað starfsfólk er opið fyrir innlendum og erlendum straumum nýrrar þekkingar og byggir allt sitt starf á að viðskiptavinurinn sé í fyrirrúmi.

 

KPMG ehf.
Borgartúni 27
105 Reykjavík
Sími: 545 6000
Netfang: kpmg@kpmg.is

 

Gagnsæisskýrsla KPMG 2014

KPMG á Íslandi

Samkvæmt lögum nr. 79 sem samþykkt voru á Alþingi 12. júní 2008, kemur fram að endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem hafa með höndum endurskoðun eininga tengdra almannahagsmunum skulu árlega birta á vefsetri sínu skýrslu um gagnsæi. Hér má nálgast þessa skýrslu KPMG.