Lagabreytingar 

Fjölmargar lagabreytingar hafa verið gerðar á síðustu vikum sem tengjast sköttum með einum eða öðrum hætti og verður hér farið yfir helstu breytingar.

Lög nr. 45/2013
Lögin, sem sem tóku gildi við birtingu 10. apríl 2013,  hafa að geyma breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og lögum nr. 45/1978, um staðgreiðsla opinberra gjalda. Breytingunum er ætlað að koma til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) hvað varðar skattlagningu eignarhalds á lágskattasvæðum, CFC reglur (e. Controlled Foreign Corporation), sem kveðið er á um í 57. gr. a tekjuskattslaga. Taldi ESA að það skorti  skilgreiningu hugtaksins „raunveruleg atvinnustarfsemi“ og það hefði verið skýrt of þröngt þegar 57. gr. a var bætt við tekjuskattslögin með lögum nr. 46/2009. Með breytingu á 7. mgr. 57. gr. a. er nú kveðið á um að ráðherra skuli skilgreina fyrrgreint hugtak í reglugerð sem og skilgreina nánar hvernig fari með framkvæmd 57. gr. a.


Í 5. mgr. greinarinnar er nú tekið sérstaklega fram að tap CFC-félags verði aðeins hægt að færa á móti seinni tíma hagnaði þess sama félags en færist ekki á móti hagnaði íslenska eigandans af starfsemi hans. Ákvæðið, eins og það hljóðaði fyrir breytinguna tók þetta ekki sérstaklega fram. Í greinargerð með frumvarpi til laganna segir um lagabreytinguna „Hér er um að ræða áréttingu og ítarlegri skilgreiningu á reglu sem ákvæðið felur nú þegar í sér.“ Erfitt er að sjá hvernig framangreind ummæli fást staðist stjórnarskrá lýðsveldisins Íslands nr. 33/1944. Þar er kveðið á um þrígreiningu ríkisvaldsins en í því felst m.a. að dómarar fara einir með dómsvaldið. Þá er einnig kveðið skýrt á um bann við setningu afturvirkra skattalaga. Alþingi er þannig að stjórnlögum hvorki falið vald til að túlka lög né er því heimilt að setja ný afturvirk skattalög.


Að lokum má nefna að í 2. gr. laganna er brugðist við athugasemdum ESA og gerð breyting á 7. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Um breytinguna er fjallað að ofan í umfjöllun um álit ESA.

 

Lög nr. 43/2013
Lögin breyttu lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Breytingin felst í því að veittar verða sérstakar lánsveðsvaxtabætur, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, til einstaklinga sem hafa vegna kaupa eða byggingar íbúðarhúsnæðis til eigin nota á árunum 2004-2008, tekið fasteignaveðlán með veði í eign annars einstaklings. Skilyrði bótanna eru um eignarhald á íbúðarhúsnæðinu um lengri eða skemmri tíma á árunum 2009 og 2010, að eftirstöðvar allra fasteignaveðlána vegna húsnæðisins hafi þá verið umfram 110% af fasteignamati og að höfuðstóll lánanna hafi ekki verið lækkaður. Lánsveðsvaxtabætur geta hæstar orðið kr. 160.000 hjá einstaklingi og 280.000 hjá hjónum og sambúðarfólki.


Lög nr. 42/2013
Lögin, sem tóku gildi við birtingu 9. apríl 2013, hafa að geyma breytingu á 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Breytingin  felur í sér að ríkisskattstjóra er heimilt að fella af virðisaukaskattsskrá skattaðila sem hefur sætt áætlun samfellt í tvö uppgjörstímabil, í stað tveggja ára áður. Með 2. gr. breytingalaganna var við 3. mgr. 29. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, aukin  heimild ríkisskattstjóra til að láta lögreglu stöðva atvinnurekstur launagreiðanda hafi hann ekki haldið eftir og skilað til innheimtuaðila staðgreiðslu af launum launafólks síns eða tilkynnt sig á launagreiðandaskrá. Heimildinni skal aðeins beitt hafi viðkomandi ekki brugðist við eftir ítrekuð tilmæli um úrbætur.


Lög nr. 39/2013
Lögin breyta lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt. Breytingarnar felast í því að aðilar með takmarkaða skattskyldu á Íslandi munu ekki sæta skattlagningu vaxtatekna af skuldabréfum sem gefin eru út í eigin nafni af fjármálafyrirtækjum eða orkufyrirtækjum, að því tilskyldu að skuldabréfin séu skráð hjá verðbréfamiðstöð í aðildarríki OECD, EES eða EFTA. Lögin tóku þegar gildi og ná til vaxta sem voru greiddir eða urðu greiðslukræfir þann 15. mars sl. eða siðar.


Lög nr. 25/2013
Með lögunum var felld brott heimild til beins opinbers fjárstuðnings (byggðaaðstoð) til  nýfjárfestinga. Einnig eru gerðar breytingar á hlutföllum ívilnana tengdum sköttum og opinberum gjöldum. Lækkað tekjuskattshlutfall skal vera 18%. Útgefin skjöl vegna uppbyggingar fjárfestingarverkefnis skulu vera undanþegin stimpilgjöldum. Þá skal álagður fasteignaskattur vera 50% lægri en lögbundið hámark að viðbættu álagi, í stað 30% áður og almennt tryggingagjald 50% lægra í stað 20% áður. Lögin koma til framkvæmda  þegar ESA hefur samþykkt  breytingarnar.


Lög nr. 24/2013
Lögin, sem tóku gildi við birtingu 21. mars 2013, breyttu ákvæðum laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er lúta að rafrænni þjónustu og starfsemi gagnavera hér á landi. Fram kemur í frumvarpi til breytingalaganna að með þeim sé brugðist við áliti Eftirlitsstofnunar EFTA sem taldi óvíst að þær undanþágur virðisaukaskattslaga sem sneru að blandaðri þjónustu gagnavera og innflutningi þeirra á netþjónum samrýmdust EES reglum um ríkisaðstoð, þar sem ákvæðin gætu verið túlkuð þannig að þau teldust sértækar ráðstafanir í skilningi reglnanna.


Með breytingunum varð sala gagnavera á blandaðri þjónustu til erlendra kaupenda, sem eru heimilisfastir á Evrópska efnahagssvæðinu, í EFTA-ríki eða í Færeyjum og ekki með fasta starfsstöð hér á landi, ekki lengur undanþegin virðisaukaskattsskyldri veltu. Þá varð innflutningur erlendra aðila á netþjónum og tengdum búnaði ekki lengur undanþeginn virðisaukaskatti, en 42. gr. A laganna var felld niður.  Til mótvægis var gildissvið 3. mgr. 43. gr. virðisaukaskattslaganna, um endurgreiðslu til erlendra fyrirtækja, útvíkkað þannig að það tekur nú einnig til innflutnings á vörum; til viðbótar kaupum á vöru og þjónustu hér á landi. Einnig var hugtakið erlendur aðili skýrt með nýjum málslið en samkvæmt því telst fyrirtæki erlent í skilningi fyrrgreindrar málsgreinar þegar fyrirtækið hefur hvorki búsetu né starfsstöð hér á landi.

 

Lög nr. 21 og 22/2013
Með lögum þessum voru gerðar breytingar á  á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, tollalögum nr. 88/2005 og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Breytingarnar felast m.a. í tilvísunum og tollskrárnúmerum er varða álagningu á sykur og sætuefni. Breytingalögin er sett í framhaldi af lögum nr. 156/2012, svokölluðum sykurskatti, sem er ætlað að hvetja til neyslu á hollari matvælum með því að tiltekin vörugjöld eru lögð á í samræmi við sykurinnihald vöru. Með lögum nr. 21/2013 voru samþykktar breytingar á gjalddögum aðflutningsgjalda og vörugjalda vegna uppgjörstímabila árið 2013, sem heimila að þeim verði dreift á tvo gjalddaga. Þetta mun ekki skerða heimild til að færa til innskatts allan virðisaukaskatt viðkomandi tímabils þótt einungis hluti hans hafi verið greiddur.

 

Reglugerð nr. 244/2013
Reglugerðin, sem tók gildi við birtingu 18. mars 2013, breytir reglugerð nr. 591/1987, um laun greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu. Hækkaðar eru viðmiðunarfjárhæðir tiltekinna greiðslna sem falla utan staðgreiðslu. Ýmsar launagreiðslur sem eru hvorki tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi launagreiðandans falla utan staðgreiðslu. Þar er t.d. átt við greiðslur fyrir persónubundin störf á við hús- og heimilishjálp fari þær ekki yfir kr. 300.000 á ári í stað 130.00 áður. Sama á við greiðslu óskattskyldra aðila, s.s. húsfélaga fari þær ekki yfir kr. 600.000 á ári í stað 260.000 áður. Endurgjald manns sem hann reiknar sér vegna sjálfstæðrar starfssemi fellur utan staðgreiðslu fari það ekki yfir kr. 450.000 á heilu ári í stað kr. 215.000 áður.