Dómar 

Að þessu sinni er fjallað um dóm Hæstaréttar um frádrátt vaxtagjalda í kjölfar samruna og tvo héraðsdóma, annars vegar varðandi skerðingu lífeyrisgreiðslna vegna tekna erlendis og hins vegar kyrrsetningu eigna vegna skattrannsóknar.

Frádráttur vaxtagjalda
Þann 28. febrúar sl. kvað Hæstiréttur upp dóm í máli nr. 555/2012 þar sem skorið var úr um frádráttarbærni vaxtagjalda í kjölfar samruna tveggja félaga. Um héraðsdóminn var fjallað í 52. tbl. Skattatíðinda. Málavextir eru þeir að félagið Bergey ehf. tók á árinu 2005 lán til að fjármagna rúmlega helming kaupverðs alls hlutafjár í P. Samúelssonar hf. Í kjölfarið var fyrrnefndu félagi slitið með samruna þess við síðarnefnt félag. Engar eignir voru í hinu yfirtekna félagi, aðrar en hlutafé í yfirtökufélaginu. Ekki var fyrir Hæstarétti deilt um hvort samruninn sem slíkur hefði verið lögmætur, heldur var deilt um heimild hins sameinaða félags til gjaldfærslu fjármagnsgjalda af lánunum sem það yfirtók frá Bergey við samrunann. Á tvær efnislegar málsástæður reyndi í þeim efnum. Annars vegar þá málsástæðu félagsins að hjá lögaðilum séu vaxtagjöld af skuldum frádráttarbær frá tekjum án tillits til þess hvort þær hafi gengið til að afla tekna í atvinnurekstri eða þær tengst honum á annan hátt. Hins vegar þá málsástæðu að við samrunann hefði sameinað félag yfirtekið heimild Bergeyjar ehf., til að draga vaxtagjöld af lánunum frá skattskyldum tekjum sínum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 51. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í málsliðnum segir að við skattalegan samruna skuli hið sameinaða félag „taka við öllum skattaréttarlegum skyldum og réttindum þess félags sem slitið var.


Hæstiréttur byggði á því að í 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 fælist sú almenna regla að rekstrarkostnaður, sem draga megi frá tekjum, skuli vera tengdur tekjuöflun í rekstrinum á árinu. Í 2. mgr. 49. gr. sömu laga væri tekið af skarið um að fjármagnskostnaður af lánum væri því aðeins frádráttarbær að fullu að kostnaðurinn tengdist atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Vextir, afföll og gengistöp, sem ekki uppfylltu það skilyrði, væru því ekki frádráttarbær rekstrargjöld. Lán Bergeyjar hafi verið tekin í þágu eigenda þess félags til að greiða þáverandi eigendum P. Samúelssonar kaupverð alls hlutafjár í því félagi. Lánin hefðu þannig ekki verið tekin í þágu sameinaðs félags og væru rekstri hans óviðkomandi.


Hæstiréttur sagði markmið ákvæðis 51. gr. um sameiningu félaga einkum hafa verið að ná samlegðaráhrifum og auðvelda félögum skattfrjálsan samruna þannig að eignaaukning í félögunum við þær aðstæður leiddi ekki til skattlagningar tekna. Hæstiréttur taldi að skýra bæri 2. málsl. 1. mgr. 51. gr. til samræmis við meginreglu 31. gr. og 49. gr. laganna um samhengi vaxtagjalda af skuldum og rekstrarkostnaðar. Sagði rétturinn að eftir samrunann hafi skuldirnar ekki haft rekstrarlegan tilgang í hinu sameinaða félagi og miðaði samruninn ekki að því að afla félaginu tekna. Samruninn hafi ekki heldur miðað að því að ná fram samlegðaráhrifum og þar með þeim tilgangi sem lá að baki 51. gr. laganna heldur hafi hann gagngert verið miðaður að því að koma skuldum yfir á yfirtökufélagið, sem ekki hafi verið vefengt að hafi verið heimilt. Skilyrði hafi hins vegar brostið til að kostnaður, sem þeim skuldum fylgdi, teldist frádráttarbær rekstrarkostnaður, enda væru þær óviðkomandi rekstri félagsins.


Með dómnum er því slegið föstu að þó skilyrði skattalegs samruna séu uppfyllt er ekki öruggt að allar skattaréttarlegar skyldur og réttindi færist yfir við samruna, þrátt fyrir skýrt orðalag ákvæðisins. Erfitt er að segja til um þau viðmið sem þar ráða úrslitum. Af dómnum má þó ráða að máli skipti að samruni miði að samlegðaráhrifum en einnig að þau réttindi eða skyldur sem færast yfir hafi rekstrarlegan tilgang fyrir hið sameinaða félag.


Ljóst er að Hæstiréttur kýs að túlka 2. málsl. 1. mgr. 51. gr. þröngt. Er því ekki fylgt þeirri almennu túlkunarreglu sem talin er gilda innan skattaréttar og kveður á um að skattalög skuli skýr og ótvíræð en sé svo ekki skuli túlka þau skattaðila í hag. Hæstiréttur horfir ekki til þess að löggjafinn sá ástæðu til að setja sérstakar reglur sem takmarka yfirfærslu ákveðinna réttinda við samruna, nánar tiltekið uppsafnaðs skattalegs taps, sbr. 54. gr. laganna. Hefði löggjafinn viljað frekari takmörkun við samruna hefði honum verið í lófa lagið að setja sérstakar reglur þar um, enda hefur engum dulist að skuldsettar yfirtökur og samrunar hafa verið stunduð í hátt í áratug athugasemdalaust. Að lokum er rétt að geta þess að félögin höfðu engan skattalegan ávinning af samrunanum sem slíkum enda gátu þau nýtt vaxtagjöld á móti tekjum rekstrarfélagsins með samsköttun. Samruninn var eingöngu gerður að kröfu lánveitanda til að fá betri veð fyrir láninu.

 

Skerðing lífeyrisgreiðslna
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2562/2012 var deilt um skerðingu lífeyrisgreiðslna manns sem unnið hafði í Bandaríkjunum í nokkur ár og greitt í þarlendan lífeyrissjóð. Álitamálið var hvort að greiðslur frá erlenda lífeyrissjóðnum ættu að koma til skerðingar á lífeyrisgreiðslum hans á Íslandi en það réðst að meginstefnu af því hvort tekjurnar væru skattskyldar hér á landi sbr. lög nr. 90/2003, um tekjuskatt. Skattaðilinn taldi tekjurnar ekki skattskyldar í þessu sambandi á þeim forsendum að tvísköttunarsamningur milli Íslands og Bandaríkjanna kvað á um að tekjurnar skyldu eingöngu skattlagðar í síðarnefnda ríkinu. Á það féllst héraðsdómur ekki og taldi ljóst að greiðslurnar væru skattskyldar á Íslandi þótt skattskyldunni væri aflétt með samningnum. Um þýðingu tvísköttunarsamningsins sagði dómurinn „Fær fyrrgreindur tvísköttunarsamningur engu um það breytt, enda felur hann í raun einungis í sér að stefnanda ber aðeins að greiða skatt af þessum skattskyldu tekjum í BNA en ekki á Íslandi.

 

Kyrrsetning eigna
Í Hæstaréttarmálinu nr. 203/2013 má lesa um kyrrsetningu sýslumannsins í Reykjavík í fasteign A. Kyrrsetningin var framkvæmd af tilefni þess að skattskil fyrrverandi maka A voru til skoðunar hjá skattrannsóknarstjóra og rökstuddur grunur var um refsiverða háttsemi sem varðaði við hegningarlög. A bar ábyrgð á skattgreiðslum fyrrverandi maka síns þar sem þau höfðu verið í hjúskap á þeim tíma sem ætluð brot voru framin.

 

Kyrrsetningarkrafan byggðist á nýlegri heimild 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt sem kom inn með breytingarlögum nr. 23/2010. Samkvæmt ákvæðinu er skilyrði kyrrsetningar að hætta sé á að eignum verði skotið undan, að þær glatist eða rýrni að mun. Héraðsdómur taldi þau skilyrði einnig þurfa að eiga við um þann aðila sem ábyrgð bar á skattgreiðslum en tollstjóri hafði aðeins vísað almennt til þess að vegna hins langa málsmeðferðartíma og sérstaks eðlis þessara brota væri veruleg hætt á undanskoti eigna. Héraðsdómur taldi Tollstjóra ekki hafa fært fram viðhlítandi rök fyrir því að slík hætta væri til staðar sem væri skilyrði kyrrsetningar og var hún því felld úr gildi. Hæstiréttur vísaði frá kæru Tollstjóra á úrskurði héraðsdóms þr sem hún var of seint fram komin. Úrskurður héraðsdóms stendur því óbreyttur.