Alþjóðlegur skattaréttur 

Fjallað er um álit ESA á skuldbindingum Íslands hvað varðar starfsemi starfsmannaleiga hér á landi.

Álit ESA
Þann 10. apríl sl. birti eftirlitsstofnun EFTA (ESA) álit á því hvort Ísland bryti gegn skuldbindingum gagnvart EES samningnum. Kvartað hafði verið til stofnunarinnar um að Ísland mismunaði starfsmannaleigum eftir því hvort þær væru stofnsettar á Íslandi eða öðru ríki EES. Samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, er skyldan til að halda eftir staðgreiðslu af launum manns lögð á launagreiðanda. Sú sérregla kemur hins vegar fram í 3. mgr. 7. gr. laganna að ef um starfsmannalegu (launagreiðanda) er að ræða með skattalegt heimilisfesti utan Íslands þá er skylda launagreiðandans lögð á kaupanda þjónustunnar, þ.e. vinnuveitandann. Það á þó ekki við ef  starfsmannaleiga er með staðfestu í EES, í EFTA ríki eða í Færeyjum og hefur réttilega staðið skil á staðgreiðslu. Til að geta staðið réttilega skil á staðgreiðslu þarf starfsmannaleiga að geta skráð sig á launagreiðendaskrá, en til skráningar á þá skrá er af erlendu félagi krafist stofnunar og skráningar útibús á Íslandi. Samkvæmt dómaframkvæmd Evrópudómstólsins er ríki talið takmarka frelsi til að veita þjónustu, sbr. 36. gr. EES samningsins, ef það áskilur að veitandi þjónustu annars EES ríkis þurfi að  skrá útibú eða með öðrum hætti koma á fót fastri starfsstöð í ríkinu. ESA taldi því að Ísland bryti gegn gegn 36. gr. EES samningsins. Brotið var ekki talið réttlætanlegt og var Íslandi veittur tveggja mánaða frestur til að bregðast við áliti ESA og aðlaga landsreglur skuldbindingum sínum.


Í kjölfarið var með lögum nr. 45/2013, um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, gerðar breytingar sem ætlað var að koma til móts við athugasemdir ESA. Um ástæður breytinganna segir m.a. í frumvarpi laganna „Það er álit ESA að íslenskar reglur er kveða á um það að notendafyrirtæki beri ábyrgð sem launagreiðandi, hafi starfmannaleiga ekki staðið réttilega skil á staðgreiðslu, brjóti í bága við EES-samninginn [...]“ Af þeim sökum var lögð til breyting á þann veg að notendafyrirtæki (kaupandi þjónustu starfsmannaleigu) beri ábyrgð sem launagreiðandi hafi starfsmannaleiga ekki staðið skil á staðgreiðslu, hvort sem hún væri stofnsett hér á landi eða annars staðar innan EES, EFTA eða Færeyjum.


Ekki er að sjá að umrædd lagabreyting komi til móts við þær athugasemdir sem ESA gerði við íslenska löggjöf. Brotið felst í því að hin erlenda starfsmannaleiga þarf að stofnsetja sig á Íslandi til að geta veitt þjónustu hér á landi og tekið á sig skyldur sem launagreiðandi.

 

Beiting tvísköttunarsamnings

Á eyðublaði RSK 5.42 er sótt um beitingu tvísköttunarsamnings. Ekki er heimilt að beita ákvæðum samnings, m.a. við staðgreiðslu skatts, nema slíkt samþykki ríkisskattstjóra liggi fyrir. Ríkisskattstjóri hefur gefið út að embættið áskilji sér um tvo mánuði til að fara yfir slíkar beiðnir. Mikilvægt er því að sækja um tímanlega ef ætlunin er að byggja á réttindum tvísköttunarsamninga Íslands enda getur endurgreiðsla tekið allt að 20 mánuði.