Úrskurðir yfirskattanefndar 

Fjallað er um úrskurði yfirskattanefndar er varða réttindanautn við arðsúthlutun, skattlagningu vaxta og tekjur frá lágskattaríki.

Réttindanautn við arðsúthlutun
Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 618/2012 voru málavextir að verðbréfafyrirtæki veitti þriðja aðila kauprétt sem síðar var seldur félagi í eigu tveggja starfsmanna verðbréfafyrirtækisins. Þegar kauprétturinn var nýttur nokkrum árum síðar, var hlutafé verðbréfafyrirtækisins hækkað til efnda á kaupréttinum. Á hluthafafundi sama dagvar einnig tekin ákvörðun um að greiða út arð til hluthafa, þ.á.m. hinna nýju hluthafa. Ríkisskattstjóri taldi að um óeðlileg skipti í fjármálum hafi verið um að ræða enda þótti honum óeðlilegt að nýir hluthafar fengju hlutdeild í hagnaði sem myndaðist áður en þeir urðu eigendur.


Á það féllst yfirskattanefnd ekki. Tók nefndin fram að samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, veiti nýir hlutir réttindi í félagi, þar með talið rétt til arðs, frá og með skráningardegi hækkunarinnar. Engu máli skipti hvað fram kæmi um ráðstöfun arðs í skýrslu stjórnar í ársreikningnum enda væri arðsúthlutun á valdi hluthafafundar. Þá hafnaði nefndin því að hinir nýju hluthafar hafi fengið úthlutun á kostnað annarra hluthafa enda hafi hluthafarnir fallið frá forkaupsrétti sínum og vitað, eða mátt vita, um tilvist kaupréttarins enda væri hans getið í samþykktum félagsins.


 

Skattlagning vaxta
Í úrskurði nr. 586/2012 var deilt um fjármagnstekjuskatt af vöxtum við sölu (innlausn). Kærandi í málinu hafði keypt spariskírteini á árinu 1991 og selt þau árið 2010. Áfallnir vextir komu til greiðslu í einu lagi við sölu skírteinisins.

Kveðið er á um skattskyldu vaxtatekna utan rekstrar í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, þar sem segir að vextir teljist til skattskyldra tekna þegar þeir eru greiddir eða greiðslukræfir. Ákvæðið kveður ekki á um með hvaða skatthlutfalli áunnir vextir skuli skattleggjast hafi skatthlutfall breyst. Um það stóð ágreiningur málsins en frá því kærandi eignast spariskírteinin hafði 10% skattur verið tekinn upp árið 1997 og síðar hækkaður í tvígang, fyrst í 15% og svo 18% sem var það skatthlutfall sem í gildi var við sölu. Í þeim lögum sem kváðu á um 10% fjármagnstekjuskatt og hækkun hans í 15% var sérstaklega tekið fram að hækkun skatthlutfallsins ætti ekki við um vexti sem fallið höfðu á (áunnist) fyrir gildistöku laganna. Í lögum nr. 128/2009 sem hækkuðu skattinn í 18% og lögum nr. 164/2010 sem hækkuðu skattinn í 20% var þetta hins vegar ekki tekið sérstaklega fram.


Ríkisskattstjóri byggði á því að áfallnir vextir sem komu til greiðslu á árinu 2010 ættu að skattleggjast í 18% skatthlutfalli ársins 2010. Kærandi taldi hins vegar að vextirnir ættu að skattleggjast í því skatthlutfalli sem í gildi var þegar vextirnir féllu á (áunnust).


Yfirskattanefnd féllst á málatilbúnað kæranda með eftirfarandi orðum „Samkvæmt viðteknum lögskýringarviðhorfum í íslenskum rétti verður lögum ekki beitt með íþyngjandi afturvirkum hætti nema þau mæli skýrlega fyrir um það sjálf. Að framangreindu virtu, sbr. og sjónarmið að baki 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, [...], verður ekki talið að umrædd lög nr. 128/2009 og 164/2010 verði skýrð svo að þau taki til áfallinna (áunninna) vaxta af kröfum, sem stofnast hafa fyrir gildistöku laga þessara, nema að því leyti sem vextirnir falla til eftir gildistöku þeirra. Skiptir þá ekki máli þótt slíkir vextir teljist að einhverju eða öllu leyti ekki greiddir eða greiðslukræfir fyrr en eftir gildistöku laganna.“


 

Í málinu var einnig deilt um innlausn á hlutdeildarskírteinum. Um innlausn á þeim sagði nefndin að skírteinin hafi ekki borið vexti í almennum skilningi heldur hafi ávöxtun skírteinanna verið fólgin í hækkun innlausnarvirðis þeirra á eignarhaldstíma kæranda. Af þeim sökum gætu tekjur sem fælust í hækkun innlausnarvirðis ekki talist „áfallnar“ fyrr en við innlausn.

 

Tekjur frá lágskattaríki
Í úrskurði yfirskattanefndar í máli nr. 538/2012 var fjallað um skattlagningu greiðslna til íslensks hluthafa frá félagi skráðu á Bresku Jómfrúareyjunum. Hluthafinn hafði talið hluta af greiðslunum fram sem arð á skattframtali sínu umrædd ár. Ríkisskattstjóri taldi hins vegar að kærandi hefði ekki sýnt fram á að umræddar greiðslur væru í raun arðgreiðslur þar sem hann hefði ekki gert fullnægjandi grein fyrir uppruna þeirra með framlagningu gagna. Leit ríkisskattstjóri svo á að tekjurnar féllu undir hið almenna ákvæði 9. tölul. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem tekur til sérhverra annarra tekna sem ekki eru sérstaklega skilgreindar eða undanþegnar í lögunum. Sá munur er á skattalegri meðferð slíkra tekna einstaklings er að þær fyrrgreindu skattleggjast sem fjármagnstekjur meðan þær síðargreindu skattleggjast líkt og laun.


Yfirskattanefnd féllst ekki á málatilbúnað ríkisskattstjóra. Taldi hún ljóst í málinu að umræddar tekjur hafi verið tekjur af hlutareign hluthafans í félaginu. Ítrekaði nefndin að samkvæmt ákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt telst til arðs, auk venjulegrar arðgreiðslu, sérhver afhending verðmæta til hluthafa er telja verður sem tekjur af hlutareign hans í félaginu. Með tillit til þess, ásamt því að upplýsingar lágu fyrir um fyrir um tildrög að stofnun hins erlenda félags og starfsemi þess, þótti nefndinni hægt að fallast á að virða bæri greiðslurnar sem arð.
Það sem vekur athygli við málið er að ríkisskattstjóri leggur sönnunarbyrðina alfarið á skattaðilann að sýna fram á að greiðslur erlendis frá séu í eðli sínu arðgreiðslur. Að jafnaði liggur sönnunarbyrðin við endurálagningu á ríkisskattstjóra um að upplýsingar í framtali séu rangar. Hvort sönnunarbyrðin um réttmæti framtalinna arðstekna, líkt og um var að ræða í þessu máli, liggi hjá skattaðila virðist nefndin ekki útiloka að svo sé. Arðshugtak 1. mgr. 11. gr. virðist hins vegar það víðtækt að skattaðili telst hafa uppfyllt sönnunarkröfur sínar ef hann getur sýnt fram á að félag hafi verið stofnað erlendis og hann gerir líklegt að tekjurnar stafi frá því félagi.