Dómar 

Að þessu sinni er fjallað um dóma er varða skattlagningu óheimilla lána til starfsmanna, heimilisfestu, mismunun og refsiábyrgð á röngum framtalsskilum. 

Skattlagning óheimilla lána til starfsmanna
Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 153/2012 var skorið úr um hvort ákvæði tekjuskattslaga, sem kveður á um að lán til starfsmanna sem óheimil eru skv. hlutafélagalögum skuli teljast til skattskyldra launa, væri í andstöðu við ákvæði stjórnarskrár. Héraðsdómur hafði komist að þeirri niðurstöðu að ákvæðið væri brot á friðhelgi eignarréttarins. Um niðurstöðu héraðsdóms var fjallað um í 50. tbl. Skattatíðinda, en þar kom m.a. fram að niðurstaðan væri lítt rökstudd og erfitt væri að setja hana í samhengi við dómaframkvæmd. Það kom því ekki á óvart að Hæstiréttur snéri niðurstöðu héraðsdóms við og taldi ákvæðin í samræmi við stjórnarskránna. Tók rétturinn fram að í dómaframkvæmd hefði löggjafanum verið játað víðtækt vald til að ákveða hvaða atriði ráði skattskyldu og væri hér um að ræða skýra ákvörðun frá löggjafanum um skattlagningu eftir almennum efnislegum mælikvarða.


Hæstiréttur taldi því að skattlagningin hafi ekki mismunað skattaðilum heldur hafi tekið jafnt til þeirra sem eins var um í efnahagslegu tilliti.

 

Heimilisfesti
Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 250/2012, var skorið úr um í hvaða ríki skattaðili væri með fulla og ótakmarkaða skattskyldu (skattalegt heimilisfesti) á árunum 1998 til 2001. Skattaðilinn byggði á því að hann hefði flutt til Bretlands árið 1998 og haft skattalega heimilisfesti þar frá þeim tíma. Honum hafi hins vegar láðst að tilkynna um flutninginn en það var fyrst gert árið 2002.


Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt skal við mat á skattalegri heimilisfesti taka mið af hvar lögheimili manns er, en skv. lögum nr. 21/1990 það er sá staður þar sem viðkomandi hefur fasta búsetu. Með fastri búsetu er átt við þann stað þar sem viðkomandi hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir.


Hæstiréttur tók fram að ekki yrði litið framhjá þeirri staðreynd að skattaðilinn hafi ekki tilkynnt um breytt lögheimili þegar hann flutti að eigin sögn. Þá hafi verið talið fram til skatts á umræddu tímabili líkt og skattaleg heimilisfesti hafi verið á Íslandi. Að öðru leyti lagði rétturinn til grundvallar að 1) skattaðilinn hafi átt fasteign á Íslandi sem hann bjó í þegar hann dvaldi á Íslandi, 2) að fjölskylda hans hafi haldið heimili hér á landi (auk heimilis í Bretlandi og Frakkalandi) og 3) skattaðilinn hefði dvalist lengur á Íslandi en erlendis á umræddu tímabili. Skattaðilinn var því talinn heimilisfastur á Íslandi skv. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Í héraðsdómi var á því byggt að 4. gr. tvísköttunarsamnings Íslands og Bretlands ætti að leiða til þess að skattaðilinn væri eingöngu með skattalega heimilisfesti í Bretlandi. Héraðsdómur taldi að skattaðilinn hefði ekki lagt fram gögn til sönnunar því að hann teldist heimilisfastur í Bretlandi á umræddu tímabili og kom það ákvæði því ekki til skoðunar. Ekki verður séð að ákvæði tvísköttunarsamningsins hafi komið skoðunar fyrir Hæstarétti.

 

Mismunun
Í Hæstaréttarmálinu nr. 416/2012 var m.a. deilt um hvort ívilnandi lagaákvæði bryti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Um dóm héraðsdóms var fjallað um í 51. tölublaði Skattatíðinda. Um var að ræða ákvæði sem heimilaði 60% endurgreiðslu virðisaukaskatts. Ákvæðið tók til verksmiðjuframleiddra íbúðarhúsa en ekki til verksmiðjuframleiddra húseininga (ekki fyrr en síðar þegar lögunum hafði verið breytt). Skattaðilinn byggði m.a. á því að lagaákvæðið, fyrir breytingu, hafi mismunað aðilum sem hann taldi vera í sambærilegri stöðu, þ.e. þeirra sem framleiddu verksmiðjuframleidd íbúðarhús og þeirra sem framleiddu verksmiðjuframleiddar húseiningar.

Hæstiréttur sagði ákvæðið ekki vera í andstöðu við stjórnarskránna með eftirfarandi orðum „Af 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar leiðir að skattamálum skuli skipað með lögum. Í dómaframkvæmd hefur löggjafinn verið talinn hafa víðtækt vald til að ákveða hvaða atriði skuli ráða skattskyldu og verður að líta svo á, að það svigrúm nái einnig til þess að kveða á um undanþágur frá skattskyldu, eins og þá sem um er deilt í þessu máli.“

 

Refsiábyrgð á röngum framtalsskilum
Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 74/2012, lauk skattahluta í máli sem má rekja allt aftur til ársins 2002. Í dómnum er fátt um áhugaverð skattaleg álitaefni heldur fjallar dómurinn að mestu um hvort ákæruvaldinu hafi tekist að sanna brot viðkomandi aðila gegn refsiákvæðum skatta- og hegningarlaga.

 

Eitt má þó nefna en það snýr að því hvort skattaðili beri refsiábyrgð á efnislega röngum skattskilum sínum, ef hann hefur fengið sérfróða menn til að útbúa skattframtalið fyrir sig. Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er skilyrði refsinæmis að rangt eða villandi sé talið fram af ásetningi eða stórfelldu hirðuleysi. Samkvæmt vitnisburði endurskoðanda var ljóst að honum höfðu orðið á mistök við útreikning á stofnverði hlutabréfa í skattframtölum tveggja ára. Stofnverðið hafði verið reiknað hærra en rétt var og leiddi það til þess að söluhagnaður var vanframtalinn. Fyrra árið var fram talinn söluhagnaður um 7 milljónum lægri en hann var og seinna árið var fram talið sölutap í stað söluhagnaðar upp á 70 milljónir króna.

 

Hæstiréttur horfði til þess að ákærði hafi verið framkvæmdastjóri félagsins frá stofnun þess. Þá sagði rétturinn orðrétt: „Honum hlaut að vera vel kunnugt um hvernig ákvarða skyldi stofnverð hlutabréfa í félaginu, ekki síst vegna verulegra breytinga sem á því hlutu að verða við útgáfu jöfnunarhlutabréfa á árinu 2002. Samkvæmt því og jafnframt að teknu tilliti til þess hve háar fjárhæðir var um að tefla, einkum í samanburði við söluverð hlutabréfanna í báðum tilvikum, verður að leggja til grundvallar að það hafi verið stórkostlegt hirðuleysi af hans hálfu að gera sér ekki grein fyrir því að söluhagnaður var verulega vantalinn í þessum tilvikum. Niðurstaða þessi er reist á mati á því hvaða kröfur hafi mátt gera til ákærða [...] um vitneskju er varðar stofnverð hlutabréfanna [...]“

 

Af dómnum má ráða að skattaðilar geta sýnt af sér stórfellt hirðuleysi með röngum skattskilum, jafnvel þótt sérfróðir aðilar séu fengnir til að fylla þau út. Við mat á því hvort um stórfellt hirðuleysi er að ræða er litið til þess hvort skattaðili hafi mátt vita að skattskil hans hafi verið röng. Slíkt getur ráðist af stöðu hans sem framkvæmdastjóra líkt og í umræddu máli. Í þessu felst að skattaðilar geta ekki í blindni samþykkt skattframtöl sín sem útbúin eru af sérfróðum aðilum heldur ber þeim að leggja sjálfstætt mat á hvort þau séu rétt.