Details

  • Service: Advisory
  • Type: Press release
  • Date: 9/10/2013

KPMG einn helsti styrktaraðili Hacker Halted ráðstefnunnar 

Þriggja ára samningur undirritaður:

 

Í dag var undirritaður samningur sem kveður á um að KPMG ehf. verði einn helsti styrktaraðili hinnar virtu Hacker Halted tölvuöryggis- og upplýsingamálaráðstefnu, sem haldin verður hér á landi í október, en þetta er í fyrsta sinn sem ráðstefnan er haldin í Evrópu.

Hacker Halted verður í Hörpu dagana 7. – 8. október og er reiknað með að hátt í 300 gestir mæti til ráðstefnunnar, erlendir og innlendir, þar á meðal margir af æðstu yfirmönnum öryggis- og upplýsingamála margra stærstu fyrirtækja heims.

 

Það voru Guðmundur Pálmason, framkvæmdastjóri Promennt og Jón S. Helgason, framkvæmdastjóri KPMG sem undirrituðu samninginn í dag, en hann er til þriggja ára.

 

Hacker Halted hefur síðustu tíu ár verið haldin í Bandaríkjunum, Japan, Malasíu og Dubaí svo nokkur lönd séu nefnd og það er því mikill heiður fyrir Ísland að vera valið fyrsta ríki Evrópu til að halda hana.

 

Fjöldi virtra fyrirlesara á sviði öryggis- og upplýsingamála munu koma fram á ráðstefnunni en í ár er kastljósinu meðal annars beint að stafrænum öryggisógnunum og hvernig hægt er að verjast þeim. Þá verða haldnar bæði vinnustofur og námskeið um margvísleg öryggis- og upplýsingamál. Meðal annars verður kynnt úttekt á netöryggismálum á Íslandi sem unnin er af KPMG og er það í fyrsta sinn sem slík úttekt er gerð. Námskeiðin sem haldin eru í tengslum við ráðstefnuna eru svo kallaðar EC-Council gráður sem öryggissérfræðingar FBI, NSA, Microsoft, IBM og fjöldi fyrirtækja, ríkisstofnana og ráðuneyta bera.

 

Það er íslenska fyrirtækið Promennt í samvinnu við EC-Council (alþjóðlegur vottunaraðili á sviði upplýsingaöryggis og netviðskipta), sem heldur ráðstefnuna í Hörpu. Skráning á hana er hafin en miðað við viðbrögð úr tölvu- og öryggisgeiranum er fastlega reiknað með að færri komist að en vilji.  Búið er að tryggja réttinn á ráðstefnunni hér á landi næstu þrjú árin. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands mun opna ráðstefnuna og mun Jay Bavisi, forseti EC-Council halda aðalfyrirlestur ráðstefnunnar.