Details

 • Type: Event
 • Date: 11/12/2014

Námskeið KPMG 

KPMG heldur á næstunni námskeið sem eru opin öllum og henta mjög vel fjármálastjórum, starfsfólki í reikningshaldsdeildum, stjórnarmönnum, nefndarmönnum í endurskoðunarnefndum, sem og ytri og innri endurskoðendum.

Námskeiðin veita löggiltum endurskoðendum endurmenntunareiningar í samræmi við reglugerð um endurmenntun endurskoðenda.


Námskeiðin verða haldin á tímabilinu 24. nóvember 2014 til 16. desember 2014 í húsakynnum KPMG, Borgartúni 27, 105 Reykjavík, sem hér segir:

 

Námskeið í endurskoðun:
Dags.Heiti Tími Verð
4. des. Innra eftirlit og rauntímaeftirlit 9:00-12:00 16.900 kr.
12. des. Endurskoðunarferillinn 9:00-12:00 16.900 kr.
16. des. Endurskoðun og sviksemi 9:00-12:00 16.900 kr.

Námskeið í reikningsskilum:
Dags. Heiti Tími Verð
2. des. Nýir staðlar og breytingar á stöðlum (IFRS Update) 9:00-12:00 16.900 kr.
3. des. IFRS 101 - Grunnnámskeið í alþjóðlegum reikningsskilastöðlum 9:00-12:00 16.900 kr.
8. des.
og
9. des.
IFRS 102 - Ítarlegt námskeið um alþjóðlega reikningsskilastaðla - Dagur 1

IFRS 102 - Ítarlegt námskeið um alþjóðlega reikningsskilastaðla - Dagur 2
9:00-12:00

9:00-12:00

29.900 kr.
11. des. IFRS 15 Tekjur af samningum við viðskiptavini 9:00-11:00 11.900 kr.

Námskeið í Excel:
Dags. Heiti Tími Verð
24. nóv. Excel I 13:00-16:00 16.900 kr.
25. nóv. Excel II 13:00-16:00 16.900 kr.

Önnur námskeið:
Dags. Heiti Tími Verð
26. nóv. Útdeiling kaupverðs og verðmat á óefnislegum eignum vegna sameininga fyrirtækja 9:00-11:00 11.900 kr.
27. nóv. Áhættustjórnun 9:00-11:00 11.900 kr.
1. des. Notkun sviðsmynda við stefnumótun og áætlanagerð 13:00-16:00 16.900 kr.
5. des. Skilvirk innkaup og réttar birgðir 9:00-12:00 16.900 kr.

Kennarar: sérfræðingar KPMG á Íslandi.
Hámarksfjöldi: 29 þátttakendur á hvert námskeið.
Lágmarksfjöldi: 10 þátttakendur á hvert námskeið (verði heildarfjöldi þátttakenda undir 10 áskilur KPMG sér rétt til að fella viðkomandi námskeið niður).
Námskeiðsgögn fylgja, en þau eru í nokkrum tilvikum á ensku.
Námskeiðsgjöldin eru undanþegin virðisaukaskatti.

Hægt er að sækja öll námskeiðin eða einstök námskeið.

Skráning fer fram hér.

Nánari upplýsingar um skráningu og skipulag námskeiða veitir Björk Arnbjörnsdóttir í síma 894-4271 eða í tölvupósti á netfangi barnbjornsdottir@kpmg.is.

Upp


Námskeiðslýsingar

 

Mánudagur 24. nóvember 2014

Excel I
Námskeiðið er fyrir þá sem notfæra sér Excel, en þeim finnst oft þurfa að fara langa leið að lausn vandamála og eyða miklum tíma í samantekt á gögnum. Miðað er við að fólk hafi grunnskilning á Excel og hafi notað forritið áður. Námskeiðið er einfaldara yfirferðar en Excel II námskeiðið. Farið er hægar yfir og meiri tíma eytt í útskýringar.

Ásamt því að fara yfir fyrirspurnir frá nemendum verður farið yfir Excel vinnuumhverfið og hvernig hægt er að sérsníða það að nemendunum og þeirra vinnu. Farið verður yfir uppbyggingu formúla með föstum og afstæðum tilvísunum og ítarlega yfir valdar formúlur t.d. if, sumif, left, right, index, match, vlookup ásamt fleiri formúlum með og án eftirfarandi skilyrða <, =, >, &, * og ?.

Að loknu námskeiði fá nemendur lausnarskjal þar sem hægt er að rifja upp allt sem fór fram í námskeiðinu ásamt fjölda annarra aðgerða sem ekki var farið yfir.

Leiðbeinandi á námskeiðinu er Valur Fannar Þórsson, sérfræðingur á sviði áætlunargerðar og líkanasmíði hjá KPMG. Valur er með BSc. í tölvuverkfræði og MSc. í Fjárfestingarstjórnun. Hann er vottaður líkanasmiður af KPMG og hefur unnið með fjölbreyttri flóru fyrirtækja við uppsetningu á áætlunarlíkönum og öðrum líkönum sem skerpa á sýn stjórnenda á hefðbundnum rekstri.

Námskeiðið gefur ekki endurmenntunareiningar.

Upp


Þriðjudagur 25. nóvember 2014

Excel II
Námskeiðið er fyrir þá sem vinna mikið með Excel og langar að geta nýtt sér möguleika þess enn betur. Á námskeiðinu verður farið yfir þær reikniaðgerðir og formúlur sem hvað mest eru notaðar í almennri Excel-vinnslu. Hver reikniaðgerð er útskýrð og farið yfir hvernig hægt er að hámarka notkunargildi hverrar formúlu.

Námskeiðið jafngildir hraðari yfirferð yfir Excel I námskeiðið, auk þess sem farið er yfir viðbótaratriði sem snúa að aðgerðum í Excel, svo sem hvernig á að fjarlægja endurtekningar í reitum, hvernig á að verja skrár með lykilorðum, búa til valmyndir, farið yfir valkvæða útlitshönnun (e. conditional formatting) og pivot töflur ásamt fjölmörgum öðrum aðgerðum, flýtilyklum og formúlum sem sparað geta mikinn tíma.

Að loknu námskeiði fá nemendur lausnarskjal þar sem hægt er að rifja upp allt sem fór fram í námskeiðinu ásamt fjölda annarra aðgerða sem ekki var farið yfir.

Leiðbeinandi á námskeiðinu er Valur Fannar Þórsson, sérfræðingur á sviði áætlunargerðar og líkanasmíði hjá KPMG. Valur er með BSc. í tölvuverkfræði og MSc. í Fjárfestingarstjórnun. Hann er vottaður líkanasmiður af KPMG og hefur unnið með fjölbreyttri flóru fyrirtækja við uppsetningu á áætlunarlíkönum og öðrum líkönum sem skerpa á sýn stjórnenda á hefðbundnum rekstri.

Námskeiðið gefur ekki endurmenntunareiningar.

Upp


Miðvikudagur 26. nóvember 2014

Útdeiling kaupverðs og verðmat á óefnislegum eignum vegna sameininga fyrirtækja
Á námskeiðinu verður farið í gegnum eftirfarandi atriði:

 • Helstu fyrirmæli alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) um útdeilingu á kaupverði (PPA);
 • Aðferðarfræði á bak við PPA;
 • Helstu verðmatslíkön og hvernig meta á algengustu tegundir óefnislegu eigna;
 • Vegin ávöxtunarkrafa eigna og samspil þeirra við ávöxtunarkröfu félagsins;
 • Áhrif PPA á reikningsskil félaga;
 • Raunhæft dæmi um útdeilingu á kaupverði.
Leiðbeinandi á námskeiðinu er Magnús G. Erlendsson, Senior Manager hjá KPMG á Íslandi. Magnús hefur áralanga reynslu af útdeilingu kaupverðs og hefur komið að kaupverðsútdeilingum hjá mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins. Auk þess hefur Magnús kennt verðmat fyrirtækja við Háskólann í Reykjavík.

Námskeiðið gefur 2 endurmenntunareiningar í flokknum reikningsskil og fjármál.

Upp


Fimmtudagur 27. nóvember 2014

Áhættustjórnun
Á námskeiðinu verður farið yfir skipulag og hlutverkaskiptingu í áhættustjórnun og hvernig áhættustjórnun getur auðveldað ákvarðanatöku og stutt við verðmætasköpun félagsins. Áhersla verður lögð á mótun áhættustefnu og skipulag áhættustjórnunar. Þá verður fjallað um hvernig vel skilgreindur áhættuvilji (e. risk appetite), stjórnborð áhættustjórnunar og sviðsmyndagreiningar geta nýst við eftirlit og ákvarðanatöku stjórna.

Leiðbeinandi á námskeiðinu er Sigurvin Bárður Sigurjónsson, sérfræðingur á sviði áhættustjórnunar hjá KPMG. Sigurvin er með BSc í viðskiptafræði og MSc í Quantitative Finance og hefur m.a. unnið með félögum í orkuiðnaði, fasteignafélögum, flutningafyrirtækjum, tryggingafélögum og fjármálafyrirtækjum.

Námskeiðið gefur 2 endurmenntunareiningar í flokknum reikningsskil og fjármál.

Upp


Mánudagur 1. desember 2014

Notkun sviðsmynda við stefnumótun og áætlanagerð
Öll þekking okkar er um fortíðina, en allar ákvarðanir sem við tökum snúast um framtíðina. Það er því æskilegt að þekkja þær aðferðir sem best nýtast til að horfa til framtíðar. Á námskeiðinu verður farið yfir notkun sviðsmynda við stefnumótun og áætlanagerð.

Að undanförnu hefur notkun sviðsmynda stóraukist hérlendis. Margir þekkja þó enn ekki hvernig best sé að nýta þær í rekstri. Erlendis hafa sviðsmyndir orðið eitt mest notaða hjálpartækið bæði við undirbúning stefnumótunar, áætlanagerðar og áhættugreiningar fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga.

Í lok námskeiðs ættu þátttakendur að hafa öðlast skilning á notkun og gildi sviðsmynda við stefnumótun og áætlanagerð.

Leiðbeinandi á námskeiðinu er Sævar Kristinsson, sérfræðingur í sviðsmyndum og stefnumótun á ráðgjafarsviði KPMG. Hann er meðhöfundur bókarinnar “Framtíðin frá óvissu til árangurs” en hún fjallar um notkun sviðsmynda í rekstri.

Námskeiðið gefur 3 endurmenntunareiningar í flokknum reikningsskil og fjármál.

Upp


Þriðjudagur 2. desember 2014

Nýir staðlar og breytingar á stöðlum (IFRS Update)
Á námskeiðinu verður farið í stuttu máli yfir nýja reikningsskilastaðla, breytingar á stöðlum, drög að nýjum stöðlum og fyrirhugaðar breytingar á stöðlum. Farið verður yfir eftirfarandi:

 • Nýja staðla og breytingar á stöðlum sem tóku gildi innan Evrópusambandsins frá og með reikningsárinu 2014, þ.e.: IFRS 10 Samstæðureikningsskil, IFRS 11 Fyrirkomulag um samrekstur, IFRS 12 Upplýsingagjöf um hagsmuni í öðrum félögum, IAS 27 Aðgreindir reikningar, IAS 28 Fjárfestingar í hlutdeildarfélögum og samrekstrarfélögum og IAS 32 Jöfnun fjáreigna og fjárskulda;
 • Nýja staðla og breytingar á stöðlum sem munu taka gildi eftir reikningsárið 2014, þ.e. IFRS 15 Tekjur af samningum við viðskiptavini, Árlegar endurbætur, IFRIC 21 Álögur og IFRS 9 Fjármálagerningar;
 • Stöðu nýrra staðla um leigusamninga og vátryggingasamninga;
 • Stöðu annarra opinna verkefna hjá Alþjóðareikningsskilaráðinu (IASB) og Alþjóðatúlkunarnefndinni um reikningsskil (IFRS Interpretations Committee)

Leiðbeinandi á námskeiðinu er Jóhann I. C. Solomon, löggiltur endurskoðandi hjá KPMG.

Námskeiðið gefur 3 endurmenntunareiningar í flokknum reikningsskil og fjármál.

Upp


Miðvikudagur 3. desember 2014

IFRS 101 - Grunnnámskeið í alþjóðlegum reikningsskilastöðlum
Á námskeiðinu verður farið með einföldum hætti yfir helstu reglur alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Námskeiðið hentar mjög vel fyrir þá sem vilja kynna sér eða rifja upp helstu reglur alþjóðlegra reikningsskilastaðla á einfaldan og hnitmiðaðan hátt, svo sem stjórnarmenn, framkvæmdastjóra og nefndarmenn í endurskoðunarnefndum.

Leiðbeinandi á námskeiðinu er Sæmundur Valdimarsson, löggiltur endurskoðandi hjá KPMG.

Námskeiðið gefur 3 endurmenntunareiningar í flokknum reikningsskil og fjármál.

Upp


Fimmtudagur 4. desember 2014

Innra eftirlit og rauntímaeftirlit
Á námskeiðinu verður farið yfir helstu þætti í virku innra eftirliti. Farið verður yfir helstu áherslur við uppbyggingu innra eftirlits í viðskiptaferlum og tengdum viðskiptakerfum. Upplýsingatækni hefur sífellt meiri áhrif á rekstur fyrirtækja, aukin sjálfvirkni í kerfum og viðskiptaferlum kallar á nýjar leiðir í uppbyggingu- og innleiðingu á innra eftirliti. Hverjar eru áhætturnar og hvaða atriði þarf að hafa í huga við skipulagningu og uppbyggingu á virku innra eftirliti. Áhersla verður á sjálfvirka eftirlitsþætti og rauntímaeftirlit, og hvernig stjórnendur geta nýtt eftirlit og mælikvarða til að bæta eftirlitsumhverfið.

Leiðbeinendur á námskeiðinu eru Kristrún Helga Ingólfsdóttir og Hjördís Ýr Ólafsdóttir, löggiltir endurskoðendur hjá KPMG, og Davíð Kr. Halldórsson, sérfræðingur á ráðgjafarsviði KPMG.

Námskeiðið gefur 3 endurmenntunareiningar í flokknum endurskoðun.

Upp


Föstudagur 5. desember 2014

Skilvirk innkaup og réttar birgðir
Á þessu námskeiði verður farið yfir leiðir til að tryggja skilvirk innkaup, lágmarka birgðir, auka veltuhraða án þess að auka líkurnar á vöruskorti.

Á námskeiðinu verður lögð áhersla á eftirfarandi þætti:

 • Innkaupastjórnun
 • Birgjagreiningar
 • Veltuhraðagreiningar og markmiðasetningu í þeim efnum
 • Mismunandi leiðir við flutninga og áhrif flutningaskilmála á rekstur.
Á námskeiðinu er lögð áhersla á virka þátttöku og markvissar umræður um málefni innkaupa. Markmiðið er að í lok námskeiðsins hafi nemendur skýrar hugmyndir um leiðir til að ná árangri í að bæta innkaupa- og birgðastýringu og leiðir til að auka veltuhraða með lágmörkun vöruskorts að leiðarljósi.

Leiðbeinandi á námskeiðinu er Kristján M. Ólafsson, hagverkfræðingur og verkefnastjóri á ráðgjafarsviði KPMG. Hann hefur víðtæka reynslu af verkefnum tengdum innkaupum, birgðum og annarri stýringu aðfangakeðjunnar.

Námskeiðið gefur 3 endurmenntunareiningar í flokknum reikningsskil og fjármál.

Upp


Mánudagur 8. desember og þriðjudagur 9. desember 2014

IFRS 102 - Ítarlegt námskeið um alþjóðlega reikningsskilastaðla
(6 klst. námskeið sem kennt er í tveimur hlutum)
Á námskeiðinu verður farið ítarlega yfir algengustu liði í efnahagsreikningi auk umfjöllunar um tengda tekju- og gjaldaliði, eftir því sem við á. Meðal viðfangsefna eru reglur um mat og færslu birgða, viðskiptakrafna, hlutabréfa og skuldabréfa, flokkun og færslur vegna leigusamninga, skammtímaskuldir, langtímaskuldir og eigið fé. Þá verður fjallað um frestaðan tekjuskatt (tekjuskattsskuldbindingu). Fleiri viðfangsefni verða tekin fyrir ef tími leyfir. Þá verður farið yfir nokkrar skýringar í ársreikningum sem tengjast viðfangsefnum námskeiðsins og fjallað um tengda aðila. Á námskeiðinu er megin áherslan á sýnidæmi og útreikninga sem sent verður þátttakendum í Excel áður en námskeiðið hefst. Þá munu þátttakendur jafnframt fá afhenta nýjustu fyrirmynd KPMG að IFRS ársreikningi.

Leiðbeinandi á námskeiðinu er Unnar Friðrik Pálsson, löggiltur endurskoðandi hjá KPMG og aðjúnkt í reikningshaldi hjá Háskólanum í Reykjavík.

Námskeiðið gefur 6 endurmenntunareiningar í flokknum reikningsskil og fjármál.

Upp


Fimmtudagur 11. desember 2014

IFRS 15 Tekjur af samningum við viðskiptavini
Á námskeiðinu verður farið yfir nýjan alþjóðlegan reikningsskilastaðal um tekjuskráningu sem kemur til með að leysa af hólmi núgildandi staðla og túlkanir sem gilda um tekjur af sölu á vöru og þjónustu. Staðalinn mun að öllum líkindum taka gildi frá og með árinu 2017. Farið verður í gegnum einstök skref í svokölluðu fimm skrefa líkani staðalsins sem nauðsynleg eru til að ákvarða hvenær skuli færa tekjur og við hvaða fjárhæð. Auk þess verður fjallað um upplýsingakröfur staðalsins.

Leiðbeinandi á námskeiðinu er Unnar Friðrik Pálsson, löggiltur endurskoðandi hjá KPMG og aðjúnkt í reikningshaldi hjá Háskólanum í Reykjavík.

Námskeiðið gefur 2 endurmenntunareiningar í flokknum reikningsskil og fjármál.

Upp


Föstudagur 12. desember 2014

Endurskoðunarferillinn
Á námskeiðinu verður farið yfir helstu atriði alþjóðlegra endurskoðunarstaðla (ISA) og þau tengd við feril endurskoðunar. Námskeiðið hentar mjög vel fyrir þá sem vilja kynna sér og/eða rifja upp meginatriði alþjóðlegu endurskoðunarstaðlanna á einfaldan og hnitmiðaðan hátt, svo sem aðalbókarar, fjármálastjóra, stjórnarmenn og nefndarmenn í endurskoðunarnefndum.

Leiðbeinendur á námskeiðinu eru Kristrún Helga Ingólfsdóttir og Hjördís Ýr Ólafsdóttir, löggiltir endurskoðendur hjá KPMG.

Námskeiðið gefur 3 endurmenntunareiningar í flokknum endurskoðun.

Upp


Þriðjudagur 16. desember 2014

Endurskoðun og sviksemi
Á námskeiðinu verður farið yfir valin atriði alþjóðlegra endurskoðunarstaðla (ISA) og þau tengd við feril endurskoðunar. Rætt verður um sviksemisáhættu bæði er varðar sviksemi í reikningsskilum og misnotkun eigna og hvernig hægt er að sporna við því.

Leiðbeinendur á námskeiðinu eru Kristrún Helga Ingólfsdóttir og Hjördís Ýr Ólafsdóttir, löggiltir endurskoðendur hjá KPMG.

Námskeiðið gefur 2 endurmenntunareiningar í flokknum endurskoðun og 1 endurmenntunareiningu í siðareglum og faglegum gildum.

Upp


 

Deila þessu

Share this

Skráning á námskeiðin

Námskeiðin eru haldin í húsakynnum KPMG, Borgartúni 27, 105 Reykjavík