Details

  • Service: Tax
  • Type: Business and industry issue
  • Date: 11/3/2011

Allir vinna (sumir meira en aðrir) 

Átakið „Allir vinna“ hefur sjálfsagt ekki farið fram hjá neinum. En um er að ræða sameiginlegt hvatningarátak stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Átakið felur í sér endurgreiðslu virðisaukaskatts og skattfrádrátt vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði og frístundahús þegar unnið er að viðhaldi eða endurbótum á húsnæðinu á byggingarstað. Ljóst er að um vel heppnað átak er að ræða enda hafa a.m.k 19.000 manns nýtt sér átakið samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra.

Bankar og aðrar lánastofnanir hafa viljað leggja sitt af mörkum í tengslum við átakið og hafa boðið viðskipavinum sínum framkvæmdalán til endurbóta á húsnæði sínu.


Aftur á móti er ekki jafnræði á milli lánastofnana og lánþegum er mismunað. Þeir aðilar sem taka endurbótalán hjá Íbúðarlánasjóði virðast vera í hvað bestri aðstöðu. Ástæðan er sú að samkvæmt b-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, mynda lán til verulegra endurbóta á húsnæði til eigin nota ekki stofn til greiðslu vaxtabóta nema lánið sé tekið hjá Íbúðalánasjóði.

 

Lántakendum og þátttakendum í átakinu „Allir vinna“ er því mismunað samkvæmt skattalögum eftir því hvar þeir taka lán. Einungis þeir sem taka lán hjá Íbúðalánasjóði eiga möguleika á því að fá vaxtabætur vegna slíkra lána.

 

Ríkisvaldið hefur haldið uppi þeim röksemdum að ef réttur til vaxtabóta vegna endurbóta á íbúðarhúsnæði yrði rýmkaður þannig að hann tæki einnig til annarra lánveitanda en Íbúðarlánasjóðs að þá yrði aukið á vanda skattyfirvalda við eftirlit. Ástæðan er sú að endurbótalán sæta sérstöku eftirliti hjá Íbúðarlánasjóði. Slíkar röksemdir eru varla haldbærar þar sem hægt er að leggja sömu kröfur á hendur annarra lánveitanda. Þá verður að telja að hugsanlega aukin vinna skattyfirvalda vegna eftirlits með fleiri aðilum vegna endurbótalánanna sé heldur léttvæg ástæða samanborið við þá mismunun sem fólk verður fyrir eftir því hjá hvaða lánveitanda það tók lán.

 

Velta má því fyrir sér hvort það sé ekki til hagsbóta fyrir fólkið í landinu að það geti valið hvar það sækir sér lán til endurbóta á húsnæði sínu. Skattalegar ívilnanir eiga ekki að ráða för við ákvörðun á því hvar lán eru tekin.


Það er sanngirnismál að jafna stöðu lántakenda og breyta ákvæði tekjuskattslaga um vaxtabætur vegna endurbóta á húsnæði til eigin nota.

 

 

Greinarhöfundur

Ágúst Karl Guðmundsson

Skattalögfræðingur

N:akgudmundsson@kpmg.is