Áreiðanleikakannanir 

Markmið með framkvæmd áreiðanleikakannana er að kanna og draga fram þau atriði í rekstri og fjárhag fyrirtækis sem geta skipt hagsmunaaðila máli.  Hagmunaðilar eru t.a.m. kaupendur félags, seljendur félags, lánveitandi, stjórnarmenn og stjórnendur, en tilgangur með áreiðanleikönnunum er fyrst og fremst að aðstoða þessa hagsmunaðila við að taka upplýstar ákvarðanir. Áreiðanleikakannanir eru unnar af óháðum og  hlutlausum aðilum með viðeigandi sérfræðiþekkingu.  

Í dag eru flestir ef ekki allir samningar um kaup og sölu fyrirtækja gerðir með fyrirvara um framkvæmd áreiðanleikakönnunar. Með áreiðanleikakönnun eykur fjárfestir skilning sinn á rekstrarhæfi og fjárhagsstöðu félags, áhættu í rekstri og eflaust koma upp á yfirborðið atriði sem geta haft áhrif á verð félagsins og/eða leitt til málaferla síðar, verði ekkert gert að í tíma. Í raun eru áreiðanleikakannanir tæki til að samræma vitneskju og upplýsingar kaupanda og seljanda á félagi svo báðir aðilar sitji við sama borð þegar kemur að samningaviðræðum.

 

Áreiðanleikakannanir eru einnig framkvæmdar áður en sölumeðferð hefst og í undirbúningi á útboði félaga (e. vendor due diligence). Þá láta seljendur framkvæma áreiðanleikakönnunina og verður niðurstaða hennar mikilvægur þáttur í söluferlinu. Slík könnun veitir kaupendum meira traust við tilboðsgerð og getur jafnframt orðið undirstaða fjármögnunar kaupanna.


KPMG býður upp á framkvæmd fjárhagslegra, skattalegra og lögfræðilegra áreiðanleikakannana. Niðurstöður vinnu KPMG eru lagðar fram í skýrslu þar sem m.a. helstu áhættuþættir í rekstri fyrirtækis eru dregnir fram. Umfang áreiðanleikakannana geta verið mismunandi eftir verkefnum og óskum verkkaupa og jafnframt tekur KPMG að sér framkvæmd afmarkaðra áreiðanleikakannana, þar sem einungis ákveðnir þættir í rekstri eða fjárhag félags eru kannaðir.


Áreiðanleikakannanirnar eru byggðar á framlögðum gögnum stjórnenda, viðtölum við stjórnendur og aðra starfsmenn og opinberum upplýsingum.

Áreiðanleikakannanir KPMG eru byggðar á alþjóðlegri aðferðafræði KPMG um framkvæmd á áreiðanleikakönnunum en löguð að þörfum og áherslum hvers verkefnis. KPMG leggur sig fram við að aðstoða viðskiptavini við að meta mikilvægi þeirra atriða sem könnunin leiðir í ljós og einnig er það markmið okkar að mæta öllum þörfum viðskiptavina eins og kostur er.

 

Fjárhagsleg áreiðanleikakönnun

Efnahagur félags. Könnunin er byggð á nýjasta endurskoðaða uppgjöri félags. Unnin er ítarleg greining á eignum og skuldbindingum félags. Dregnar eru sérstaklega fram eignir sem eru ekki rekstrartengdar.

 

Rekstur. Rekstur félags er skoðaður m.a. í sögulegu samhengi og yfirleitt er miðað við rekstur félags sl. þrjú ár. Greining á uppruna tekna, sveiflum í rekstri og breytingum á kostnaðarhlutföllum ásamt greinargerð um viðskiptasambönd við viðskiptavini og birgja.

 

Áætlanir. Greining á fyrirliggjandi áætlunum félags og forsendum. Einnig er unnin frávikagreining á áætlunum og rauntölum sl. ár til stuðnings við mat á áreiðanleika fyrirliggjandi áætlana. Mat á áætlaðri fjárfestingarþörf.

 

Önnur atriði í fjárhagi eða rekstri sem viðskiptavinur óskar sérstaklega eftir að KPMG kanni.


Skattaleg áreiðanleikakönnun
Við framkvæmd skattalegrar áreiðanleikakönnunar eru m.a. kannaðar tekjuskattskuldbindingar, kvaðir tengdar virðisaukaskatti, skattaleg málefni tengd samruna og skiptingum félaga og skil á skýrslum til viðkomandi skattyfirvalda.

 

Lagaleg áreiðanleikakönnun
Við framkvæmd lagalegrar áreiðanleikakönnunar er farið yfir gögn um fyrirtækið, s.s. samþykktir félags, fundargerðir stjórna, fundargerðir hluthafafunda, skipurit og samninga við hluthafa. Einnig er farið yfir fjölþættar samningsskuldbindingar félags, s.s. varðandi sölumál, birgðir, kaup og sölu eigna og vörumerki. Aðrir þættir sem eru skoðaðir varða m.a. tryggingamál, hugverkaréttindi, málaferli, fasteignir og aðrar eignir, umhverfismál, fjármögnunargögn, starfsleyfi og skil á skýrslum til opinberra aðila eftir því sem við á.


 

Nánari upplýsingar veita:

H. Ágúst Jóhannesson

Partner

Sími 545 6350

Netfang: ajohannesson@kpmg.is

 

Guðrún Björk Stefánsdóttir

Verkefnastjóri

Sími 545 6330

Netfang: gstefansdottir@kpmg.is