Alþjóðlegur skattaréttur 

Samruni yfir landamæri
Íslenskar reglur sem heimila ekki skattfrjálsan samruna yfir landamæri eru að mati ESA brot á EES samningnum.

Í nýlegu áliti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) var fjallað um hvort skattlagning millilandasamruna væri í samræmi við EES samninginn. Samkvæmt skattframkvæmd, sbr. m.a. bindandi álit ríkisskattstjóra nr. 1/08, hefur ekki verið talið heimilt að tvö eða fleiri fyrirtæki renni saman yfir landamæri án þess að slíkur samruni hafi í för með sér skattalegar afleiðingar. Í því felst að í skattalegu tilliti er litið svo á að um sölu eigna yfirtekna félagsins til yfirtökufélagsins sé að ræða og getur því myndast skattskyldur söluhagnaður við samrunann ef kaupverð er hærra en bókfært verð. Skattfrjáls samruni getur hins vegar átt sér stað milli innlendra félaga að vissum skilyrðum uppfylltum, sbr. 51. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.


Vegna þessa mismunar á skattalegri meðferð, eftir því hvort félag er heimilisfast á Íslandi eða annars staðar á EES, var send kvörtun til ESA. Í svari stofnunarinnar kemur fram það álit að íslensku reglurnar hindri staðfesturétt fyrirtækja og frjálst flæði fjármagns innan EES. Stofnunin dregur ekki í efa að Íslandi sé heimilt að setja slíkum samrunum ákveðnar skorður til að vernda skattstofna sína en verði í því sambandi hins vegar að beita vægari úrræðum, sem dæmi að veita frest á skattgreiðslum.


Ísland hefur tvo mánuði til að gera viðeigandi ráðstafanir til að uppfylla skuldbindingar sínar gagnvart EES samningnum. Ef ekki verður orðið við þeirri beiðni getur ESA lagt málið fyrir EFTA dómstólinn.