Dómar 

Héraðsdómur felldi úr gildi ákvörðun ríkisskattstjóra, um að synja manni með takmarkaða skattskyldu, sem naut lífeyrisgreiðslna frá Íslandi, um nýtingu á skattkorti maka.

Nýting skattkorts maka
Í dómi héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-6728/2010, dags. 13. nóvember 2012, var deilt um hvort örorkubótaþegi hefði heimild til að nýta persónuafslátt maka, en hjónin voru búsett í Danmörku. Stefnandi var með takmarkaða skattskyldu hér á landi meðal annars á grundvelli lífeyris sem hann fékk greiddan. Eiginkonan var ekki skattlögð í Danmörku, enda var hún hvorki skráð með tekjur þar né á Íslandi. Ríkisskattstjóri hafnaði beiðni stefnanda um nýtingu skattkorts maka, m.a. á grundvelli þess að stefnandi og eiginkona hans hafi ekki borið ótakmarkaða skattskyldu hér á landi. Skilyrði til millifærslu ónýtts persónuafsláttar hjóna væru því ekki uppfyllt.


Stefnandi byggði á því að skattaleg staða þeirra hjóna hefði verið nákvæmlega sú sama og ef þau hefðu búið á Íslandi en ekki Danmörku á umræddu tímabili. Synjun ríkisskattstjóra á nýtingu skattkorts maka hefði því falið í sér mismunun á grundvelli EES-samningsins um frjálsa för launþega og rétti til búsetu í aðildarríkjum ESB og EFTA.

Í forsendum að niðurstöðu héraðsdóms segir m.a. að líta verði til athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA dags. 7. júlí 2010, en þar var Ísland ekki talið hafa uppfyllt skyldur sínar samkvæmt EES-samningnum um frjálsa för launþega og búsetu, með því að neita bótaþega annars lands um rétt til skattafrádráttar eiginkonu sinnar, sem hann hefði notið hefði hann búið á Íslandi. Taldi dómurinn að fallast yrði á að staða stefnanda í Danmörku í skattalegu tilliti hafi verið sambærileg og ef hann hefði búið á Íslandi. Því hafi mismunun falist í því að skerða rétt stefnanda, til nýtingar skattkorts maka, af þeirri ástæðu einni að hann hafi verið búsettur í Danmörku. Ákvæði 3. mgr. 2. tölul. 70. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, var því túlkað með tilliti til ákvæða EES-samningsins og talið ná einnig til persónuafsláttar maka, enda hafi hjónin ekki haft aðrar tekjur en örorkubætur stefnanda sem skattlagðar voru á Íslandi. Ákvörðun ríkisskattstjóra var  talin skorta lagastoð og var því felld úr gildi.