Details

  • Date: 6/22/2011

Kvótinn - sameign þjóðarinnar 

Mikil umræða hefur verið um núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi vegna frumvarpa sem lögð hafa verið fram og ætlað er að umbylta núverandi kerfi. Helstu rök fyrir boðuðum breytingum eru að samfélagið fái ekki viðunandi hlutdeild í afrakstri auðlindarinnar og að nauðsynlegt sé að sjávarbyggðir getið ráðstafað aflaheimildum til að tryggja atvinnu og búsetu. Umsagnir um nýju kvótafrumvörpin eru almennt að rekstrarhagkvæmni í greininni muni minnka og afrakstur þjóðarinnar muni verða minni ef boðaðar breytingar koma til framkvæmda.

Núverandi fyrirkomulag
Í núverandi kerfi er útgerðum árlega úthlutað veiðiheimildum. Ef minnka þarf veiðar eru heimildir allra skertar hlutfallslega en auknar ef afli er aukinn. Einungis þeir sem eiga fiskiskip geta fengið úthlutað aflaheimildum og eru þær bundnar tilteknum skipum.


Sameign þjóðarinnar
Í lögum um stjórn fiskveiða segir að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar og að markmið laganna sé að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.


Nokkuð ósamræmi er á milli þess að nytjastofnar séu sameign þjóðarinnar og að þeim einum sem eiga fiskiskip er úthlutað aflaheimildum. Nauðsynlegt er að skilja á milli úthlutunar á aflaheimildum og fiskveiða. Með slíkum aðskilnaði væri opnað á að allir landsmenn gætu fjárfest í aflaheimildum án þess að eiga fiskiskip eða hafa veiðileyfi í fiskveiðilögsögunni. Með tillögunni er ekki verið að kollvarpa reglum sem gilt hafa um úthlutun á aflaheimildum. Þvert á móti að þær verði með sama hætti og verið hefur, þannig að þeim sem nú hafa yfir að ráða aflaheimildum haldi þeim. Einungis er gert ráð fyrir að aðilar, sem ekki stunda fiskveiðar, geti fjárfest í aflaheimildum.


Nýr fjárfestingarvalkostur
Aðskilnaður milli nýtingarréttar á aflaheimildum og heimildar til að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni er grundvöllur þeirra breytinga sem hér eru kynntar. Með þeim verður aðilum, sem ekki stunda fiskveiðarnar heimilt að fjárfesta í aflaheimildum. Fjárfesting í aflaheimildum verður þá valkostur á við fjárfestingu í hlutabréfum. Arður af fjárfestingunni yrði í formi leigu á aflamarki til útgerða. Þessi útfærsla hentar sveitarfélögum vel þar sem þeim verður heimilt að fjárfesta í aflaheimildum og leigja til útgerða sem auka atvinnu í sveitarfélögunum.


Það kann að vera hagkvæmt fyrir útgerðir að gera langtímasamninga um leigu á aflamarki í stað þess að fjárfesta í aflaheimildum. Þeirra hagur er að stunda fiskveiðar á hagkvæman hátt án þess að þurfa að binda fé í aflaheimildunum. 
 

Breytingar á reglum
Mikilvægt er fyrir útgerðir og fjárfesta að hafa ráðstöfunarrétt yfir auðlindinni til langs tíma. Fjárfestar eru ekki líklegir til að fjárfesta í aflaheimildum ef þeir hafa takmarkaðan ráðstöfunarrétt. Eins er útgerðum mikilvægt að hafa ráðstöfunarrétt til langs tíma til að marka langtímastefnu í veiðum og vinnslu.


Til að samræma sjónarmiðin um eignarhald þjóðarinnar og að tryggja handhöfum aflaheimilda nýtingarrétt til langs tíma er lagt til að beita sambærilegum reglum og við leigulóðir. Ef slík regla er yfirfærð á aflaheimildir myndu handhafar þeirra semja um langtímaafnot aflaheimilda án formlegs eignarhalds. Í núgildandi lögum um stjórn fiskveiða er tekið fram að úthlutun aflaheimilda myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði yfir heimildum.


Í samningum væri, með vísan til verndunarsjónarmiða, hugsanlegt að veita heimild til að skerða úthlutaðar aflaheimildir um ákveðið hámark (2-5%) á samningstímanum án bóta. Ef hins vegar væri talið óhætt að auka veiði yrði aukningin seld á markaði. Á sama hátt og aukning yrði seld bæri að kaupa aflaheimildir ef nauðsynlegt væri að draga úr veiðum umfram samningsbundnar skerðingar.


Handhafar aflaheimilda myndu árlega greiða leigugjald (auðlindagjald) til ríkissjóðs.


Niðurstaða
Framangreindar tillögur fela í sér róttækar breytingar frá núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og þeim frumvörpum sem lögð hafa verið fram á Alþingi en eru til þess fallnar að sætta ólík sjónarmið. Stöðugleiki og öryggi sem felst í tillögunum munu leiða til hagræðingar í útgerð og fiskvinnslu sem mun skila sér í auknum tekjum útgerðar, sjómanna og samfélagsins í heild.


Alexander G. Eðvardsson
Höfundur er endurskoðandi

 

Nánari upplýsingar

Contact Image

Description

Phone