Details

  • Type: Press release
  • Date: 9/6/2012

Vantar 223 konur í stjórnir 

Þann 1. september 2013 taka gildi lög sem kveða á um að hlutfall hvors kyns sé að lágmarki 40% í stjórnum lífeyrissjóða og stærri fyrirtækja sem segir okkur að það vantar 223 konur í stjórnir til að kynjakvótanum verði náð að ári. Þetta á við um alla lífeyrissjóði, hlutafélög, einkahlutafélög, samlagshlutafélög og opinber hlutafélög þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn á ársgrundvelli.

 

Í ársbyrjun 2012 tók KPMG  saman upplýsingar um þau fyrirtæki og lífeyrissjóði sem falla undir löggjöfina og aftur 1. september þegar ár er til stefnu. Samanburðurinn leiðir í ljós að fá fyrirtæki og lífeyrissjóðir nýttu aðalfundina í ár til að fjölga konum.


Í könnun KPMG meðal íslenskra stjórnarmanna sem framkvæmd var sumarið 2011 voru vísbendingar um að fjöldi kvenkyns stjórnarmanna væri að aukast töluvert samhliða nýliðun í stjórnum en sú aukning  virðist ekki duga til að auka heildarhlutfall kvenna í stjórnum.


Það er því ljóst að töluverðar breytingar munu þurfa að eiga sér stað í stjórnum þessara fyrirtækja og lífeyrissjóða þegar aðeins einn aðalfundur er til stefnu þar til lögin taka gildi.

 

 

 

Heildarhlutfall kvenna í stjórnum lífeyrissjóða er núna 33,3%. Við fyrstu sýn virðist það hlutfall vera hátt en vert er að benda á að í hverjum lífeyrissjóði þarf hlutfall hvors kyns að vera að lágmarki 40% þegar stjórnarmenn eru fjórir eða fleiri og ef stjórnarmenn eru þrír eða færri þarf hvort kyn að eiga fulltrúa í stjórn. Fjöldi stjórnarmanna er slétt tala hjá 14 af 31 lífeyrissjóðum (t.d. 6 eða 8 stjórnarmenn) sem leiðir til þess að hlutfall hvors kyns þarf að vera 50% í þeim sjóðum (má ekki fara undir 40%). Það leiðir til þess að þegar allir lífeyrissjóðir eru með stjórnir í samræmi við löggjöfina  verður heildarhlutfall hvors kyns í stjórnum lífeyrissjóða a.m.k. 45,3%.

 

Nánari upplýsingar veitir:

Berglind Ósk Guðmundsdóttir

Lögfræðingur

Sími: 545 6149

Netfang: bgudmundsdottir@kpmg.is