Sjálfstæð úttekt á fyrirtækjum (IBR) 

Ráðgjöf KPMG býður upp á sjálfstæðar  rekstrarúttektir á fyrirtækjum (IBR). Tilgangur IBR er að veita kröfuhöfum og/eða eigendum hlutlaust mat á stöðu félagsins, framtíðarmöguleikum og lykilþáttum í rekstri. Niðurstöðurnar nýtast til ákvarðana um framtíðarstefnu eða fjárhagslega endurskipulagningu ef þess er þörf.

Fyrir hvern
Á núverandi umbreytingartímum er algengt að eigendur og lánadrottnar eigi í viðræðum um framtíðar fjármagnsskipan og stefnumótun félaga. Við þá vinnu er mikilvægt að báðir aðilar skilji reksturinn vel. Í flestum tilfellum vinnur KPMG IBR  úttekt fyrir bankastofnanir sem vilja skilja til fulls stöðu og framtíðarhorfur þeirra félaga sem bankarnir eru að vinna með. Einnig getur greiningin nýst við mat á því hvort félög séu tilbúin fyrir formlegt söluferli og stefnumótun hjá nýjum eigendum.


Ekki er óalgengt að félög í fjárhagslegri endurskipulagningu þurfi að eiga við fleiri en einn lánadrottinn og getur þá verið æskilegt að fá óháðan þriðja aðila til að meta fjárhagsstöðu félags og áætlanir og jafnframt aðstoða kröfuhafa til að meta stöðu hvers og eins með tilliti til trygginga og lánastöðu.

Þrátt fyrir að bankarnir séu helstu kaupendur IBR þjónustu hefur hún einnig verið unnin fyrir eigendur félaga sem gera sér grein fyrir því að lánadrottnar meta að verðleikum frumkvæði í tillögum að endurskipulagningu félaga og gagnsægi í upplýsingagjöf um stöðu rekstrar.  KPMG hefur jafnframt unnið IBR fyrir sveitarfélög.

 

Umfang IBR
IBR  er ekki ósvipuð blöndu af viðskipta- og fjárhagsáreiðanleikakönnunum. Við gerð hennar fer fámennur hópur reynslumikilla starfsmanna KPMG yfir helstu fleti rekstrarins með stjórnendum  félagsins ásamt því að vinna úr þeim rekstar- og fjárhagsgögnum sem tiltækar eru. Úttektirnar beinast helst að fjórum grunnþáttum þó áherslur séu mjög mismunandi eftir verkefnum og þörfum viðskiptavinarins.

 • Greiðslustaða félagins - Við slíka greiningu eru áætlanir stjórnenda um sjóðsstreymi  og fjárflæði til skamms tíma metnar og helstu niðurstöður dregnar fram og kynntar. Einnig eru frávik eldri áætlana frá rauntölum metnar og mat lagt á getu stjórnenda til að stýra stöðu handbærs fjár með það að markmiði að félagið geti staðið við skuldbindingar.
 • Rekstur og stjórnun - Metnar eru lykilbreytur sem stjórnendur nota til að fylgjast með og stjórna rekstrinum. Skoðað er sögulegt tekju- og kostnaðarmynstur og það metið hvort frekara svigrúm sé til að auka framlegð. Stöku sinnum reynist einnig mikilvægt að gera gróft mat á hagkvæmni og skilvirkni helstu verkferla.
 • Fjárhagur og áætlanir – Lagt er mat á áætlanagerð félagsins og helstu forsendur metnar. Við þá yfirferð eru gæði og áræðanleiki stjórnendaupplýsinga skoðuð og bent er á tækifæri til endurbóta þar sem þau finnast.
 • Markaður - Velt er upp spurningum eins og hvar fyrirtækið staðsetji sig á markaði, hverjir helstu áhrifaþættir þess markaðar séu og hver líkleg framtíðarþróun hans sé.

 

Verkefnin eru klæðskerasniðin að þörfum hverju sinni og því koma oft aðrir þættir til skoðunar eins og verðmat á rekstrinum, mat á seljanleika og sérstakar úttektir á einstökum atriðum.


IBR verkefnin eru unnin náið með verkkaupa og honum haldið vel upplýstum um gang verksins með áfangaskýrslum.

 

   

  IBR skýrsla
  Niðurstaðan, sem sett er fram í skýrslu, er hlutlaust mat óháðs aðila á rekstri, stjórnun og horfum ásamt því að lagðar eru fram tillögur að úrbótum þar sem þeirra er þörf.

  • Skýrslan er mikilvægt tæki fyrir eigendur og kröfuhafa til að átta sig á núverandi stöðu og til að marka skýra stefnu til framíðar.
  • Skýrslan er hlutlaust mat á núverandi stöðu félags, fjárhagi, rekstri og stjórnun og skipulagi.
  • Skýrslan felur í sér tillögur ef þörf er á breytingum í rekstri, stjórnskipulagi, stefnumótun eða fjármálum.
  • Niðurstaða skýrslunnar er grunnur til að leggja mat á fjárþörf félagsins, verðmæti þess og jafnframt grunnur til þess að leggja mat á hvaða aðgerða / breytinga er þörf á svo félagið sé seljanlegt ef fyrirhugað er að setja félagið í söluferli.
  • Skýrslan nýtist í áreiðanleikakönnun seljanda og/eða sölugögn ef ákveðið verður að leita eftir nýjum hluthöfum.


 

 

 

 

Nánari upplýsingar veita:

Svanbjörn Thoroddsen

Partner

Sími: 545 6220

Netfang: sthoroddsen@kpmg.is